Innrás Rússa hafin og sprengjum varpað á Kænugarð og Kharkív

Hádegið - Podcast autorstwa RÚV

Rússar hófu innrás í Úkraínu í nótt. Vladimír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti það í sjónvarpsávarpi skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt. Þar varaði hann um leið önnur ríki við skipta sér af aðgerðum rússneska hersins, og sagði aðgerðir sínar fyrst og fremst til þess fallnar að verja íbúa í austurhluta Úkraínu, sem eru að megninu til Rússar. Ef alþjóðasamfélagið myndi skipta sér af, hefði það ófyrirsjáanlegar og fordæmalausar afleiðingar. Pútín sakar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra um að hunsa kröfur Rússa um að Úkraína fái aldrei inngöngu í NATÓ. Þá segist hann ekki ætla sér að hertaka Úkraínu, það sé Úkraínumanna sjálfra að kjósa um hverjir stjórni landinu. Tilkynnt hefur verið um loftárásir í nokkrum hlutum Úkraínu, þar á meðal í Kænugarði og Kharkiv. (Harkív) Gríðarlegar umferðarteppur mynduðust á götum Kænugarðar í morgun. Flestir stefna í vesturátt, út úr borginni. Kröfur vestrænna ríkja eru allar á einn veg, Pútín skal draga herlið sitt til baka - ellegar verða afleiðinar. Josehp Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, lýsti deginum sem þeim ?svartasta síðan í seinna stríði.? Við ræðum stöðuna ásamt Jóni Ólafssyni, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingi í málefnum Rússlands, í síðari hluta þáttarins. Í fyrri hluta þáttarins ræðir Kristjana Björk Barðdal, tæknisérfræðingur hádegisins og stjórnandi UT-hlaðvarpsins Ský, við okkur um hámhorfsmál og streymisveitur. Íslendingar sækja í efni á streymisveitum sem aldrei fyrr. Nýleg neyslukönnun Gallups rennir til dæmis stoðum undir þá kenningu. Samkvæmt henni eru þrjú af hverjum fjórum heimilum á Íslandi með áskrift að Netflix og ríflega fimmta hvert íslenskt heimili í áskrift hjá Viaplay. Um fjörutíu og fimm prósent heimila eru með áskrift að einhverri þjónustu Sjónvarps Símans og um fjórðungur með áskrift að Stöð 2. Sextán prósent eru með áskrift að Disney-plús - sem varð fyrst aðgengileg hér á landi í fyrra - og svo eru um tíu prósent í áskrift að Apple TV+. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.