Jafnaðarmenn í Þýskalandi í kjörstöðu og R Kelly dæmdur sekur

Hádegið - Podcast autorstwa RÚV

En við byrjum í Þýskalandi, þar sem kosið var til sambandsþings um helgina. Eftir sextán ára setu á kanslarastóli er tími Angelu Merkel kominn, og allar líkur á því að Olaf Scholz, leiðtogi Jafnaðarmanna, taki við embætti kanslara. Jafnaðarmenn fengu ríflega fjórðung atkvæða og lýstu yfir sigri í kosningunum. Flokkurinn mun mynda ríkisstjórn ásamt Græningjum og Frjálslyndum demókrötum. Angela Merkel er þó líklega ekki á förum alveg strax, þar sem það getur tekið langan tíma að mynda ríkisstjórn í Þýskalandi. Og Armin Laschet, arftaki hennar og kanslaraefni Kristilegra demókrata, hann telur að flokkurinn eigi bara víst erindi í ríkisstjórn, þrátt fyrir að hafa tapað miklu fylgi frá síðustu kosningum. Guðmundur Björn tekur nú við. Í gær sakfelldi kviðdómur í New York ríki bandaríska tónlistarmanninn R. Kelly fyrir að hafa stýrt kynferðisglæpahring í um áratug, í fyrsta dómsmálinu af þó nokkrum vegna málsins. Hann á því yfir höfði sér fimmtán ára fangelsi og allt að lífstíðarfangelsi, en dómari á eftir að kveða upp refsingu í málinu. Saknæm, óviðeigandi og ólögleg háttsemi söngvarans virðist hafa verið á margra vitorði í gegnum árin, þótt lítið hafi verið viðhafst þar til nú, eftir langa og stranga baráttu brotaþola hans. Katrín skoðar málið í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.