Log4j og Tikhanovsky í átján ára fangelsi

Hádegið - Podcast autorstwa RÚV

Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við netöryggissveitina CERT-IS og fjarskiptastofu vegna Log4j veikleikans svokallaða. Unnið er að viðbragðsáætlun um hvernig beri að vernda ómissandi upplýsingainnviði. Mörg hjörtu taka aukaslag þegar fréttir sem þessar berast og óttast að persónulegar upplýsingar, skilaboð og annað, gæti farið í almenna dreifingu. Ríkislögreglustjóri telur þó að almenningur þurfi ekki að óttast veikleikann þegar kemur að heimilistölvunni eða farsímum. En hvað er þetta fyrirbæri, Log4J? Kristjana Björk Barðdal, tæknisérfræðingur Hádegisins svarar því. Sergei Tikhanovsky, einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, var í gærmorgun dæmdur í átján ára fangelsi fyrir að skipuleggja og hvetja til óeirða og mótmæla gegn stjórnvöldum. Tikhanovsky hefur verið í haldi frá því í maí í fyrra þegar hann ákvað að skora forseta landsins til 27 ára - Alexander Lukashenko - á hólm í forsetakosningum. Eiginkona Tikhanovskys, Svetlana Tikhanovskaya, tók við við keflinu og framboðinu þegar hann var tekinn höndum. Bæði hún og Lukashenko lýstu yfir sigri í kosningunum - en þar sem Lukashenko sat sem fastast neyddist Tikhanovskaya til að flýja land vegna harðra aðgerða stjórnvalda gegn stjórnarandstæðingum og mótmælendum sem töldu kosningarnar spilltar og ólýðræðislegar. Tikhanovskaya heldur þó baráttunni áfram, jafnvel þótt hún sé niðurkomin í nágrannaríki Hvíta-Rússlands. Baráttu sem hún segir að þau stjórnarandstæðingarnir muni að endingu vinna sigur í - og það áður en eiginmaður hennar verði búinn að dúsa á bak við lás og slá í átján ár. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur..