Nýr forseti Síle og tekið á móti afgönskum flóttamönnum

Hádegið - Podcast autorstwa RÚV

Gabriel Boric er næsti forseti landsins eftir sigur í síðari umferð forsetakosninganna í landinu. Þessi 35 ára gamli lögfræðingur á ærið verk fyrir höndum, að sameina klofna þjóð í landi þar sem bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Hann er eins ólíkur fyrirrennurum sínum á forsetastóli eins og hugsast getur. Átök hafa geisað í Afganistan í meira en fjóra áratugi. Og nú - tuttugu árum eftir að innrásarlið Bandaríkjanna setti stjórn Talíbana af sölsuðu þeir undir sig öll völd í Afganistan á ný nú í ágúst. Þeir lofuðu þó betri tíð, bættum stjórnarháttum og auknu jafnrétti. En ekki leið á löngu þar til orð og gjörðir hættu að stemma: Ráðuneyti málefna kvenna var skellt í lás, konum var gert að hylja sig, stúlkum meinað að mæta í skóla, jafnvel til vinnu, föngum var sleppt, og hundrað aftökur hið minnsta framkvæmdar án dóms og laga. Nú blasa hörmungar við í Afganistan: Efnahagshrun og hungursneyð. Það er því kannski ekki að undra að fjöldi fólks vilji burt eða þurfi að komast burt. Sér sér og sínum ekki lengur fært að dvelja í heimalandinu. Ríkisstjórn íslands brást við með því að samþykkja að taka á móti allt að hundrað og tuttugu flóttamönnum frá Afganistan. Síðan þá eru sextíu og einn komnir til landsins, fjörutíu þáðu boð um skjól í öðru landi, og núna í dag - rétt fyrir hádegi, lentu tuttugu og tveir Afganar í Keflavík eftir langt og strangt ferðalag. En hvað tekur við nú eftir lendingu? Hvernig tökum við hér á landi á móti fólki sem við höfum boðið hér skjól? Hvernig förum við að því að auðvelda þeim aðlögun í eflaust ágætlega framandi samfélagi? Við spurðum Lindu Rós Alfreðsdóttur, sérfræðing í félagsmálaráðuneytinu og starfsmann flóttamannanefndar, nánar út í það. Hún kíkti til okkar í morgun, staldraði stutt við á leið sinni til Keflavíkur að taka á móti nýju landsmönnunum. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.