R. Kelly fyrir dóm og hverjir eru Talíbanar?

Hádegið - Podcast autorstwa RÚV

Við hefjum Hádegið í dag í Bandaríkjunum. Undafarin misseri hafa fleiri og fleiri heimsþekktir tónlistarmenn, leikarar og aðrir sem unnið hafa í skemmtanaiðnaðinum, sætt ásökunum um kynferðisofbeldi. Uppgangur MeToo-byltingarinnar skipar þar stórt hlutverk. Nýjasta stórfréttin er sú að nóbelsverðlaunahafanum Bob Dylan er gefið að sök að hafa brotið kynferðislega gegn tólf ára stúlku fyrir rúmlega hálfri öld, eins og við ræddum um í Hádeginu fyrr í vikunni. Sum þessara mála enda með kæru, önnur ekki. Í gær dró til tíðinda í einu umfangsmesta máli sinnar tegundar síðustu ár, þegar réttarhöld yfir söngvaranum, lagahöfundinum og framleiðandanum R. Kelly hófust í New York. Kelly sætir ákæru fyrir mörg og margvísleg kynferðisbrot. Í þessari viku höfum við fjallað ítarlega um uppgang Talíbana í Afganistan, fall stjórnarhersins þar í landi, viðbrögð Bandaríkjastjórnar við ástandinu þar og síðast en ekki síst þá umdeildu ákvörðun Bandaríkjanna og annara ríkja Atlantshafsbandalagsins NATÓ, að draga herlið sitt til baka frá landinu eftir 20 ára hersetu. Það er óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér í Afganistan, en eitt er víst: Talíbanar eru komnir aftur til valda, 20 árum eftir innrás Bandaríkjanna inn í landið. En hverjir eru Talíbanar, hver er þeirra hugmyndafræði og hefur hún breyst á síðastliðnum 20 árum? Hvaðan fá þeir fjármagn sitt? Við ræðum um þetta og margt fleira sem snýr að Talíbönum í síðari hluta þáttarins við Gunnar Hrafn Jónsson, blaðamann og sérfræðing í málefnum Mið-Austurlanda. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.