Skipulögð úrelding og sjálfstæðisbarátta Alsír
Hádegið - Podcast autorstwa RÚV
Kategorie:
Þið kannist eflaust við það að tiltölulega nýleg raftæki eiga það til að hætta skyndilega að virka. Í gamla daga virtust raftæki endast heilu áratugina; ísskápurinn var alltaf sá sami, útvarpstækið og síminn líka. Upplifun margra neytenda í dag er öðruvísi, þrátt fyrir að tækninni hafi fleytt fram og maður myndi ætla að raftæki væru endingarbetri í dag. Þau eru það nefnilega, en hagur framleiðandans er hinsvegar auðvitað sá að þú kaupir fleiri tæki af þeim. Þetta fyrirbæri kallast skipulögð úrelding. Semsagt, þegar framleiðindi ákveður líftíma tækja sinna. Kristjana Björk Barðdal, sérfræðingur Hádegisins í nýjustu tækni og vísindum, lítur við. Sjálfstæðisbarátta Alsír var löng og ströng og oft og tíðum grimmileg. Atburðir sautjánda október 1961 eru glöggt dæmi um það. Þá réðist lögregla að alsírskum mótmælendum sem höfðu safnast saman til að mótmæla útgöngubanni um nætur í París sem aðeins gilti um Alsíringa - myrti tugi eða hundruði mótmælenda og köstuðu svo líkunum í Signu. Sextíu ár eru liðin síðan voðaverkin áttu sér stað og á sunnudaginn var þeirra minnst í Parísarborg. Þá varð Emmanuel Macron fyrsti forseti Frakklands sem tekur þátt í minningarathöfn vegna atburðanna. Þar sagði hann atlögu lögreglunnar ófyrirgefanlegan glæp. Hann var í kjölfarið gagnrýndur fyrir að stíga ekki skrefið til fulls: Biðja Alsíringa ekki formlega afsökunar á ódæðinu og viðurkenna ekki þátt franska ríkisins í því. Í seinni hluta þáttarins ræðum við við Torfa Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldarfræðum við Háskóla Íslands, um atburði sautjánda október 1961, sjálfstæðisbaráttu Alsír og samskipti ríkjanna í dag. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.