Spjallmenni og skopmyndateiknarinn Lars Vilks látinn

Hádegið - Podcast autorstwa RÚV

Við byrjum á nýjustu tækni og vísindum. Kristjana Björk Barðdal, tölvunarfræðingur og þáttastjórandi UT-hlaðvarps Ský, er sérfræðingur Hádegisins í öllu því sem viðkemur tæknimálum. Í síðustu viku ræddum við um stöðu kvenna í tölvuleikjabransanum en í dag ætlum við að spjalla um allt annað, svokölluð spjallmenni. Rannsóknir hafa sýnt að viðskiptavinir hinna ýmsu fyrirtækja vilja geta fengið skjót svör við spurningum sínum á netinu þegar þau bóka eða kaupa hluti. Hingað til hefur þá þurft að vera manneskja á hinum enda spjallborðsins, með tilheyrandi tilkostnaði, en það er að breytast. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á Íslandi eru byrjuð að nota spjallmenni til þess að svara viðskiptavinum; þau svara erindum viðskiptavina hratt og skjótt - en eru auðvitað ekki manneskjur. Og ekki vélmenni heldur. En hvað eru spjallmenni? Sænski listamaðurinn Lars Vilks lést í umferðarslysi á sunnudaginn, sjötíu og fimm ára að aldri. Teikningar af hundi með spámannshöfuð gjörbreyttu lífi listamannsins við birtingu þeirra árið 2007 - og hugsanlega áttu þær eftir að hafa áhrif á dauðdaga hans líka. Því þrátt fyrir að lögregla telji ekkert saknæmt eða grunsamlegt við umferðarslysið sjálft, gæti bifreiðin sjálf, sem Vilks ferðaðist með, sérstök ómerkt og sérlega útbúin lögreglubifreið, hafa átt þátt í hvernig fór. En Vilks naut lögreglufylgdar allt frá birtingu myndanna árið 2007 og fram til dauðadags, vegna líflátshótana og ógnanna vegna myndanna. Hann var til dæmis talinn meginskotmark hryðjuverkaárásar á menningarmiðstöð á Austurbrú í Kaupmannahöfn árið 2015. Við fjöllum um manninn, teikningarnar, pólitíkina, trúarbrögð og andlát Lars Vilks í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.