Amazon, makríll og byggingaúrgangur

Spegillinn - Hlaðvarp - Podcast autorstwa RÚV

Stjórnvöld í Brasilíu hafa lagt sextíu daga bann við því að kveikja elda til að ryðja skóglendi, til að bregðast við skógareldunum í Amazon-frumskóginum. Jair Bolsonaro, forseti landsins, undirritaði tilskipunina. Hann hefur sætt harðri gagnrýni fyrir framgöngu sína vegna eldanna, og deilur hans við leiðtoga helstu iðnríkja heims um viðbrögð við ástandinu hafa vakið ótta um að stjórnvöld í Brasilíu taki ekki í taumana fyrr en skógurinn hefur orðið fyrir óbætanlegu tjóni, og þar með jörðin öll. Sigríður Hagalín Björnsdóttir talaði við Jón Geir Pétursson og Hannes Hólmstein Gissurarson. Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafnar því algjörlega að græðgi hafi ráðið makrílveiðum Íslendinga. Hann segir að það sé röng nálgun að hóta viðskiptabanni. Evrópusambandið ætti að einbeita sér að því að ná mönnum að samningaborðinu. Arnar Páll Hauksson talar við Jens Garðar Helgason. Nýlega fjallaði Spegillinn um hvernig draga mætti stórlega úr losun frá byggingariðnaði með því að minnka sementsinnihald steypu. Einnig var fjallað um meðferð byggingaúrgangs en algengt er að efni sem mætti endurvinna sé nýtt í landfyllingar. Um síðustu áramót færðust mannvirkjamálin frá umhverfisráðuneytinu og yfir til félagsmálaráðuneytis. Ásmundur Einar Daðason, ráðherra mannvirkjamála, sér fyrir sér að auknar kröfur verði gerðar til byggingageirans á næstu árum en vill ekki fara of geyst því það gæti komið íslenskum fyrirtækjum í greininni illa. Arnhildur Hálfdánardóttir talaði við Ásmund Einar Daðason.