Þjóðaröryggisráðgjafi rekinn, ferðaþjónustan rís aftur og læknasvind
Spegillinn - Hlaðvarp - Podcast autorstwa RÚV
Kategorie:
John Bolton, sem í vikunni var rekinn sem þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, er mikill áhugamaður um norðurslóðir - sumir segja að hann hafi verið einn af arkitektum norðurslóðastefnu Bandaríkjanna. En nú er hann hættur, og þá vaknar sú spurning hvort brotthvarf hans hafi áhrif á áhuga og umsvif Bandaríkjanna hér um slóðir. Fyrrverandi sendiherra Íslands vestanhafs telur það ólíklegt. Stígur Helgason segir frá og talar við Albert Jónsson. Horfur eru á að ris úr dýfu sem ferðaþjónustan er í eftir magalendinguna í mars þegar WOW air varð gjaldþrota fari hægt af stað. Greiningardeild Arionbanka spáir því að ferðamönnum fjölgi um 2% á næsta ári og að störf í ferðaþjónustu verði um tveimur þúsundum færri undir lok árs en á sama tíma í fyrra. Kyrrsetning MAX-véla Icelandair þýði að umsvif félagsins verði svipuð á næsta ári og á þessu. Hvort fjölgun ferðamanna verður meiri ráðist að miklu leyti af því hvort hér taki á loft nýtt flugfélag. María Sigrún Hilmarsdóttir talar við Jóhannes Þór Skúlason. Læknar og hjúkrunarfræðingar á átta heilsugæslustöðvum í Svíþjóð eru sakaðir um að hafa ýkt heilsufarsvanda skjólstæðinga sinna í þeim tilgangi að svíkja út peninga. Svindlið virðist vel skipulagt og umfangsmikið. Kári Gylfason í Gautaborg tekur við. Kári Gylfason segir frá.