Fyrstu hvalirnir veiddir, selja á Perluna, samgöngusáttmáli

Spegillinn - Podcast autorstwa RÚV

Fyrstu langreyðar vertíðarinnar hafa verið veiddar. Hvalveiðiskip eru á leiðinni með dýrin til hafnar í Hvalfirði. Óvíst er hvað verður gert með skýrslu um aðbúnað og meðferð á fullorðnu fólki með þroskahömlum og geðrænan vanda. Skýrslan var kláruð í fyrra og ekkert hefur verið aðhafst. Það á að selja Perluna til að reyna að stoppa í skuldir borgarinnar. Stjórnlagadómstóll í Frakkland hefur úrskurðað að stjórnvöldum sé heimilt að banna skólastúlkum að klæðast abaya-kjólum, sem tíðkast hjá múslimum, í ríkisreknum skólum landsins. Það sé í samræmi við lög sem banna öll trúartákn í skólum. Átján prósent íbúa hér á landi eru erlendir ríkisborgarar. Það styttist í að íbúar hér á landi verði fjögur hundruð þúsund. Það væri skynsamlegt að setja framkvæmdir sem eru góðar fyrir umferðina, umhverfið og höfuðborgarsvæðið í heild í forgang og hægja frekar á öðrum verkefnum í samgöngusáttmálanum, segir borgarstjóri. Nú er verið að endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, fjögurra ára gamalt plagg, sem komið er langt fram úr áætlun - bæði tímaáætlun og fjárhagsáætlun. Hvað verður úr - verða verkefni slegin af, hætt við eitthvað, eða teygt á áætluninni? Hvað er búið að gera og hvað er eftir? Spegillinn skoðar málið. Eftirspurn eftir rafmagni er mikil og margir um hituna. Notkun heimila er ekki stór biti af þeirra köku, um 5%. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri telur að tryggja verði raforkuöryggi almennings í lögum. Eins verði að vera skýrt að aukist orkuframboð rati það í orkuskiptin. Þau eru flókið verkefni sem stýrist meðal annars af því hve hratt gengur að innleiða tækni. Umsjónarmaður Spegilsins var Ragnhildur Thorlacius. Tæknimaður var Mark Eldred. Annalísa Hermannsdóttir stjórnaði fréttaútsendingu.