Gaza og Eurovision, Hútar réðust á norskt skip, skýra þarf námskrá

Spegillinn - Podcast autorstwa RÚV

Rússar voru í fyrra útilokaðir frá þátttöku í Eurovision að áeggjan nokkurra sjónvarpsstöðva sem aðild eiga að EBU Evrópusamtökum útvarpsstöðva. Norrænu ríkisstöðvarnar, þar á meðal RÚV, fóru þar fremstar í flokki undir forystu Finna. Að lokum lét EBU undan, meinaði Rússum þátttöku og rak úr samtökunum. Nú eru uppi háværar raddir um að útiloka skuli Ísrael frá þátttöku í Eurovision vegna þeirra stríðsglæpa sem ljóst þykir að Ísraelsher hafi framið í stríðsrekstri sínum á Gaza. Er þetta sambærilegt? Spegillinn ræddi við Kára Hólmar Ragnarsson, lektor í alþjóðarétti og Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Norska flutningaskipið Strinda er á leið til hafnar eftir að uppreisnarmenn Húta í Jemen skutu á það með flugskeyti í gær. Eldur kviknaði í skipinu, en engan sakaði. Í skýrslu um helstu niðurstöður PISA eru settar fram tillögur um aðgerðir, vegna þess að árangur íslenskra nemenda í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi er talsvert lakari en áður hefur mælst. Þar segir að meðal annars sé nauðsynlegt að endurskoða aðalnámsskrá grunnskóla. Spegillinn leit við í Hagaskóla, hitti þar skólastjórann og doktorsnemann Ómar Örn Magnússon og bað hann að útskýra námskrár málin. Umsjónarmaður Spegilsins var Ragnhildur Thorlacius. Tæknimaður var Kári Guðmundsson.