Grindavík, Evrópuþingkosningar, Úkraína og Rússland

Spegillinn - Podcast autorstwa RÚV

5. júní 2024 Það eru um sjö mánuðir síðan Grindavík var rýmd, jarðhræringarnar halda áfram og verkefnin sem við blasa eru mörg og krefjandi. Atvinnu- og húsnæðismálin kannski mest aðkallandi segir Árni Þór Sigurðsson, formaður nýrrar framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur, í viðtali við Önnu Kristínu Jónsdóttur. Um þrjú hundruð og sjötíu milljónir eru á kjörskrá fyrir kosningar til Evrópuþingsins sem hefjast á morgun og standa fram á sunnudag. Þingið var í upphafi valda- og áhrifalítið en hefur í seinni tíð fengið aukið vægi innan Evrópusambandsins. Búist er við að harðlínu-hægriflokkar auki fylgi sitt í kosningunum, þótt líklegt sé talið að hófsamir miðjuflokkar haldi meirihluta. Björn Malmquist, fréttamaður RÚV í Brussel, segir frá. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, gefur lítið fyrir leiðtoga- og friðarráðstefnu vegna stríðsins í Úkraínu, sem sem haldin verður í Sviss um miðjan mánuð, og varar Frakka við því, að sendi þeir franska hernaðarsérfræðinga til Úkraínu til að þjálfa þarlenda hermenn í notkun franskra og vestrænna vopna, þá teljist þeir lögmæt skotmörk rússneska hersins. Ævar Örn Jósepsson fjallar um ráðstefnuna og afstöðu Rússa. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon