Strokulax, kapphlaup til tunglsins og breytingar á byggingarreglugerð

Spegillinn - Podcast autorstwa RÚV

Spegillinn 30. ágúst 2023. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Kormákur Marðarson. Stjórn útsendingar: Júlía Margrét Ingimarsdóttir Óvenju mikið er af laxi við Ósá í Patreksfirði þar sem göt fundust á eldiskví í síðustu viku. Hvorki er þó hægt að fullyrða hve margir fiskar sluppu né hvort fiskar sem veiðst hafa í ám á norðvesturhorninu eru úr kvínni. Lögreglunni bárust tilkynningar um 79 nauðganir fyrstu sex mánuði ársins. Börn voru næstum helmingur þolenda kynferðisbrota á tímabilinu. Stærstur hluti þeirra sem leita meðferðar við óæskilegum kynferðislegum hugsunum og hegðun í kringum börn, eru karlmenn á aldrinum 18-60 ára, segir Jóhanna Dagbjartsdóttir sálfræðingur. Karitas M. Bjarkadóttir talaði við hana. Stærð og umgjörð bankakerfisins er ástæða þess að vaxtamunur er meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum, að mati Benedikts Gíslasonar formanns stjórnar Félags fjármálafyrirtækja. Hann segir að metarður bankanna skili sér til neytenda. Pétur Magnússon tók saman. Rekja má tvö hundruð og þrettán andlát í fyrra til covid-19, samkvæmt ársskýrslu sóttvarnalæknis. Alls smituðust hundrað sjötíu og níu þúsund af kórónuveirunni í fyrra. Ekki hafa fleiri smitast af lekanda á einu ári í meira en þrjátíu ár. Valgerður Greta G. Gröndal sagði frá. Íslenska óperan hefur sótt um einkaleyfi á vörumerkinu Íslenska þjóðaróperan á sama tíma og verið er að undirbúa stofnun þjóðaróperu í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri segir þetta ekki gert til að trufla það starf. Ásta Hlín Magnúsdóttir tók saman. ------------ Aðeins eitt af hverjum þremur skólabörnum í Úkraínu fær fulla kennslu í vetur. Meira en hálf milljón barna á flótta er ekki skráð í skóla. Ásgeir Tómasson sagði frá og heyrist í Reginu de Dominics, svæðisstjóra barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, Margir hafa reynt við tungllendingar undanfarin misseri: Japanir, Ísraelar, Rússar og í síðustu viku lentu Indverjar ómönnuðu könnunarfari á suðurpóli tunglsins. Þar hefur enginn lent áður. Ragnhildur Thorlacius sagði frá kapphlaupinu til tungslins, heyrist í John. F. Kennedy. Núgildandi byggingarreglugerð var sett fyrir ellefu árum. Hún er um 150 síður og hefur verið breytt árlega. Ingveldur Sæmundsdóttir leiðir stýrihóp sem settur var á fót í vor og vinnur að heildarendurskoðun og einföldun á byggingarreglugerðinni. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við Ingveldi.